Innlent

Vatni hleypt úr Hálslóni í næstu viku

MYND/Hörður Sveinsson

Til stendur að hleypa vatni úr Hálslóni á þriðjudaginn kemur þar sem lónið fyllist fyrr en æskilegt þykir. Er þetta gert í öryggisskyni til að halda fyllingarhraðanum niðri.

Samkvæmt heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar var lónshæðin rúmir 592 metrar yfir sjávarmáli 21. júní og hafði hækkað um 70 sentímetra á sólarhring vikuna á undan. Það vantar því aðeins rúma 30 metra á að lónið nái fullri hæð en það átti að gerast í haust.

Fram kemur á vef Fljótsdalshéraðs að vatni verði hleypt af lóninu í gegnum botnrásir í 525 metra hæð yfir sjávarmáli eða fimm metrum fyrir neðan inntaksop virkjunarinnar.

Vatnsmagn í farvegi Jökulsár á Dal eykst við þetta um 150-300 rúmmetra á sekúndu og er unnið eftir ákveðnu verklagi til þess að reyna að draga sem mest úr flóðtoppi. Rennslið í árfarveginum eykst umtalsvert en nálgast samt aldrei meðalrennsli í Jöklu eftir því sem segir á vef Fljótsdalshéraðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×