Innlent

Samningur um orkusölu OR til Helguvíkur samþykktur í borgarráði

MYND/Róbert

Borgarráð samþykkti í dag samning um sölu orku frá Orkuveitu Reykjavíkur til hugsanlegs álvers í Helguvík. Minnihlutinn í borgarráði greiddi atkvæði gegn samningnum og segir í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, fulltrúa Samfylkingarinnar í borgarráði, að flokkurinn hafi látið bóka að óráðlegt sé að samþykkja slíkan samning þegar ekki liggi fyrir hvort Orkuveitan verði bundin af samningi um sölu 200 megavöttum af raforku til stækkunar álversins í Straumsvík.

Samningurinn um sölu til Helguvíkur feli í sér skuldbindingu á sölu 100 megavatta og forkaupsrétt álversins að 75 megavöttum að auki. Það þýði að nær allir virkjunarkostir sem Orkuveitan hafi haft til skoðunar á undanförnum árum séu bundnir í orkusölusamningum til stóriðju. Samþykkt samningsins við Helguvík þýði að yfir 90 prósent af orku frá nýjum virkjunum Orkuveitunnar renni til álbræðslu og verði bundin álverði.

„Jafnframt þýðir þetta að sala OR á orku verður lítil sem engin til þeirra fjölmörgu áhugaverðu kaupenda sem hafa gefið sig fram, svo sem netþjónabúa og annarra mengunarlausra stórkaupenda, nema horfið verði frá áætlunum um aukna sölu inn á almennan markað," segir í ályktun Samfylkingarinnar.

Þá er enn fremur bent á að umhverfismati sé ólokið og mati á verndargildi og annarri nýtingu þeirra náttúrusvæða þar sem virkjanir eru fyrirhugaðar og einnig fjölmörgum lögformlegum leyfisveitingum. Skynsamlegt hefði verið huga rækilega að þeim atriðum áður en samningurinn er samþykktur.

Þá lagði Samfylkingin til á fundi borgarráðs að kannaðar yrðu leiðir þannig að virkjanir OR vegna samninga um sölu á orku til stóriðju yrðu sjálfstæðar einingar, stæðu undir öllum kostnaði þeim tengdum og yrðu fjármagnaðar með verkefnafjármögnun en án ábyrgðar eigenda. Tillögunni var vísað til afgreiðslu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×