Innlent

Bolungarvík fær 400 tonn af rækju

Fjörkippur hljóp í rækjuvinnslu á norðnverðum Vestfjörðum þegar heilfrystri rækju úr Barentshafi var landað þar í morgun til fullvinnslu en rækjuvinnsla hefur legið þar niðri í röska þrjá mánuði.

Það er fyrirtækið Bakkavík í Bolungarvík sem keypti rækjuna, um 400 tonn, af færeysku útgerðarfyrirtæki og er búist við að þetta hráefni dugi til vinnslu út júlí mánuð, að minnstakosti.

Að sögn Guðmundar Eydal hjá Bakkavík munu um 30 manns stafa við úrvinnsluna. Flestir þeirra hafa unnið við viðhald og ýmis störf hjá fyrirtækinu síðan vinnslu var hætt í vetur en uppsagnarfresti þeirra var um það bil að ljúka.

Nokkir eru þegar hættir vegna styttri upsagnarfrests og vegna þess að fiskvinnslu var líka hætt hjá fyrirtækinu. Hún hefst ekki að nýju fyrr en í fyrsta lagi á nýju fiskveiðiári í haust.

Um framhald rækjuvinnslunnar segir Guðmundur að það ráðist algerlega af markaðsaðstæðum, eða hráefnisverði annars vegar og afurðaverði á heimsmarkaði hins vegar.

Þessi fjörkippur er mikilvægur fyrir atvinnulífið í Bolungarvík og kemur á svipuðum tíma og rækjuverksmiðjunni Miðfelli á Ísafirði var lokað vegna rekstarörðugleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×