Viðskipti innlent

Fjármálastjórn jafni frekar sveiflur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hjá AGS í Washington DC.
Hjá AGS í Washington DC.
Við stjórn opinberra fjármála gætum við horft til reynslu Belga og Hollendinga, segir í nýju vinnuskjali Anthony Annetts hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF).

Hann bendir á að hér hafi opinber útgjöld haft tilhneigingu til að aukast í takt við hagsveiflu og ýta undir þenslu.

Belgar og Hollendingar hafa tekið upp fjármálastjórnun þar sem horft er til lengri tíma en árs í senn. Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, segir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé rætt um að innleiða rammafjárlög til fjögurra ára.

„Þá þarf að komast að pólitískri niðurstöðu um vægi allra útgjaldaflokka. Þetta er í deiglunni og verið að vinna að því að koma þessu í fastari umgjörð.“

Þorsteinn bendir á að einnig sé verið að ræða við Samband íslenskra sveitarfélaga um að koma að hagstjórninni með þátttöku í svokallaðri fjármálareglu, en ríkissjóður hefur fylgt slíkri reglu frá 2003.

Með breytingum sem þessum segir Þorsteinn horft til þess að fjármálastjórn hins opinbera í heild verði sem mest sveiflujafnandi, en bendir um leið á að tölur um niðurstöðu opinberra fjármála frá 2003 sýni að gagnrýni á að ríkissjóður hafi ekki komið nægilega að hagstjórninni með Seðlabankanum sé að nokkru óréttmæt.

„Ef einhvers staðar eru vandræði með heildarhagstjórnina þá varðar það virkni peningamálastefnunnar. Þar er kannski helsti vandinn verðtryggðu vextirnir en vegna þeirra finna heimilin seint fyrir stýrivaxtahækkunum,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×