Viðskipti innlent

Skýrist í vikunni hvort leiðin er fær

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Bréf Seðlabankans 
til Verðbréfaskráningar 
frá 14. og 19. september sl.
Bréf Seðlabankans til Verðbréfaskráningar frá 14. og 19. september sl.
Í lok vikunnar eða byrjun næstu liggur fyrir hvort farin verður sú leið sem Seðlabankinn og Verðbréfaskráning mælast til við uppgjör evruhlutabréfa hér. Einar Sigurjónsson, forstjóri OMX Verðbréfaskráningar Íslands, segir líklegast að lausn sé fundin sem allir geti sætt sig við, en bankarnir hafi hana nú til skoðunar.

Í bréfi sem Seðlabankinn ritar Verðbréfaskráningu 19. september er á það bent að þrátt fyrir að félögum hafi verið heimilað með lögum að ákveða hlutafé sitt í erlendri mynt hafi ekki verið kveðið á um hvernig ljúka ætti peningalegu uppgjöri viðskiptanna.

Seðlabankinn, Verðbréfaskráning, Kauphöll og fjármálafyrirtæki hafa unnið að nýrri lausn síðan þá, en upphaflega stóð til að Landsbanki Íslands annaðist uppgjörið til bráðabirgða.

Í sama bréfi kveðst Seðlabankinn „reiðubúinn til að annast til bráðabirgða og með takmörkuðum hætti peningalegt uppgjör viðskipta með rafrænt skráð hlutabréf í evrum“.

Einar segir að með „takmörkuðum hætti“ vísi Seðlabankinn til þess að hann geti ekki stutt uppgjör í evrum með sama hætti og í krónum, einfaldlega vegna þess að bankinn gefi ekki út evrur.

„Lausnin á hins vegar alveg að geta gengið, þetta er bara spurning um að finna bestu leiðina í henni,“ segir hann en fara á svipaða leið og ætlað var þegar stefndi í að Landsbankinn annaðist uppgjörið.

„Bankarnir eru að takast á við sömu hluti og þyrfti hvort eð er að gera síðar varðandi uppgjör í annarri mynt en krónum. Þeir þurfa ákveðna fyrirgreiðslu, alveg eins og þyrfti ef farið væri í gegnum Seðlabanka Finnlands og það hjálpar bara síðar að hafa glímt við þetta.“

Einar segir hins vegar ljóst að áfram sé að því stefnt að vera með uppgjörið til framtíðar í seðlabanka í evrulandi og að einna helst hafi verið horft til Seðlabanka Finnlands í þeim efnum, enda annist hann evru-uppgjör fyrir sænsku kauphöllina. Hann segir hins vegar ljóst að miðað við túlkun Seðlabankans á ákvæði í lögum um rafræna eignaskráningu verðbréfa sé sú leið ófær að sinni og útlit fyrir að breyta þurfi þeim lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×