Skoðun

Meira um lagamenntun á Íslandi

Bryndís Hlöðversdóttir, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, gerir athugasemd 16. júní við grein sem ég ritaði viku fyrr í tilefni af fyrstu útskrift nemenda með fullnaðarpróf í lögfræði frá lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Í athugasemdum sínum segir Bryndís það koma „oftar en einu sinni fram“ í grein minni, að Háskólinn í Reykjavík hafi útskrifað fyrstu lögfræðingana með fullnaðarpróf í lögfræði utan HÍ. Segir hún þetta hagræðingu á staðreyndum sem hún geti ekki setið undir þegjandi.

Því er til að svara að hér er um að ræða túlkun Bryndísar á greininni, enda kemur framangreind staðhæfing þar ekki fram. Í grein minni, sem ætlað var að vekja athygli á þeim tímamótum sem urðu í lagakennslu á Íslandi þegar 43 nemendur útskrifuðust með meistarapróf í lögfræði frá HR 9. júní, hefði aftur á móti mátt gæta meiri nákvæmni þegar segir að HÍ hafi einn sinnt menntun lögfræðinga á Íslandi frá 1911 (Lagaskólinn frá 1908). Fráleitt var það ætlan mín að rýra hlut Háskólans á Bifröst, sem útskrifaði sína fyrstu lögfræðinga með fullnaðarpróf í fyrra. Það var merkur áfangi. „Það er leiðinlegt að við skulum ekki blístra hvor á annan eins og fuglarnir. Orð eru villandi,“ sagði Jón Prímus.

Samkeppni í lagakennslu hefur orðið til þess að efla lagamenntun í landinu og styrkja akademíska stöðu lögfræðinnar. Í grein minni segir um þetta: „Áhrifin koma fram í fleiri valkostum fyrir þá sem vilja leggja stund á lögfræði á Íslandi, bættum kennsluháttum og auknu framboði á námskeiðum og fræðafundum og stórauknum metnaði við fræðistörf. Tilkoma lagakennslu við Háskólann á Bifröst og Háskólann á Akureyri eykur á fjölbreytni þessarar flóru.“ Með tilvitnuðum orðum er vakin athygli á, að lagadeildirnar fjórar eiga hver sinn þátt í þessari þróun, þótt greinin að öðru leyti fjalli einkanlega um hlutverk HR og hin merku tímamót sem útskrift fyrstu meistaraprófsnemendanna þaðan vissulega er.

Höfundur er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og prófessor við lagadeild HR.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×