Innlent

Ráðist á Ómar um hábjart sumarkvöld

„Ómar! Helvítið þitt!“ Ómar varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að á hann var ráðist, bíll hans barinn utan og rúða mölvuð.
„Ómar! Helvítið þitt!“ Ómar varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að á hann var ráðist, bíll hans barinn utan og rúða mölvuð.

„Ég varð að hægja mjög á bílnum svo að hann stöðvaðist næstum því en ég þorði ekki að stoppa alveg því að þegar maðurinn kom nær með hnefana á lofti sá ég að andlit hans var afmyndað af heift og hatursbræði og ekki leyndi sér að hann ætlaði að stöðva mig og brjótast inn í bílinn til að ganga frá mér,“ skrifar Ómar Ragnarsson á bloggsíðu sína.

Hann varð fyrir því nýverið að á hann var ráðist á Vesturlandsvegi þar sem hann var á ferð á sínum fornbíl af gerðinni NSU Prinz 1958. Þrátt fyrir óskir Fréttablaðsins, bæði áður en hann birti frásögn sína á Netinu og eftir, vill hann ekki tjá sig um atvikið umfram það sem segir á síðu hans. Segir þó þetta innlegg í umræðu undanfarinna daga um vaxandi ofbeldi á götum Reykjavíkur, umræðu sem hann segir að fari nú mjög fram á Netinu. Hann veltir því fyrir sér hvað valdi.

„Skammt fyrir austan bensínstöð Skeljungs var bíl ekið framúr mér vinstra megin og út um glugga hékk maður sem skók að mér hnefann og hrópaði: „Ómar! Helvítið þitt!“ Bílnum var ekið um það bil hundrað metra fram fyrir mig, en þar var hann stöðvaður á ská, þannig að hann lokaði alveg akreininni í vestur,“ skrifar Ómar hins vegar sem slapp við illan leik með því að læsa bílnum. Maðurinn barði bílinn utan og mölvaði rúðu farþegamegin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×