Viðskipti innlent

Óbreyttir stýrivextir taldir langlíklegastir

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, kynnti í síðasta mánuði nýja skýrslu um fjármálastöðugleika hér á landi. Í dag tilkynnir bankinn um stýrivaxtaákvörðun sína.
Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar Seðlabankans, kynnti í síðasta mánuði nýja skýrslu um fjármálastöðugleika hér á landi. Í dag tilkynnir bankinn um stýrivaxtaákvörðun sína. Fréttablaðið/Anton
Verðbólga hefur reynst þrálát í hagkerfinu og af þeim sökum er samdóma álit greiningardeilda bankanna að Seðlabanki Íslands haldi stýrivöxtum óbreyttum í 14,25 prósentum á vaxtaákvörðunardegi sínum í dag.

Þá eru óbreyttir vextir í samræmi við spá Seðlabankans sjálfs eins og hún birtist í Peningamálum, efnahagsriti bankans, við síðustu vaxtaákvörðun í lok mars. Seðlabankinn tók þá upp nýja stefnu í birtingu hagspáa og kynnti þann stýrivaxtaferil sem bankinn taldi líklegastan. Bankinn gerði þá ráð fyrir því að ekki þyrfti að hækka stýrivexti frekar, en að vaxtalækkunarferli myndi ekki hefjast fyrr en á fjórða ársfjórðungi þessa árs.

Greiningardeildir hafa hins vegar talið að vaxtalækkunarferlið gæti mögulega hafist fyrr, en eins og greiningardeild Glitnis bendir á hefur verðbólguþróunin verið í aðra átt.

„Húsnæðismarkaður er mjög líflegur þessa dagana, ekki síst vegna betra aðgengis almennings að lánsfé sem nú er í auknum mæli tengt erlendri mynt á tiltölulega lágum vöxtum. Auk heldur er atvinnuleysi enn afar lágt og laun hafa hækkað talsvert hratt undanfarið. Innlendur kostnaðarþrýstingur er því töluverður og virðist vera að brjótast út í verði vöru og þjónustu um þessar mundir. Ef verðbólga reynist umtalsverð í næsta mánuði og umsvif verða áfram veruleg á íbúðamarkaði kann svo að fara að næstu Peningamál, sem út koma í júlíbyrjun, teikni öllu dekkri mynd af verðbólguþróun en þá sem dregin var upp í mars,“ segir í nýrri úttekt bankans og því ekki talið útilokað að vextir haldist hér háir lengur en gert hafi verið ráð fyrir til þessa.

Greiningardeild Kaupþings tekur í sama streng og segir ljóst að talverður verðbólguþrýstingur sé í hagkerfinu um þessar mundir. „Að mati Greiningardeildar á Seðlabankinn enn langt í land með að ná tökum á verðbólgunni og harla ólíklegt að verðbólgumarkmið náist á árinu. Greiningardeild gerir ráð fyrir að áfram muni draga úr 12 mánaða verðbólgu á næstu mánuðum en að verðbólgan haldist yfir markmiði fram til ársins 2008. Óvissuþættir eru þó margir og virðast flestir vera upp á við eins og staðan er í dag,“ segir Kaupþing og gerir ráð fyrir „hörðum tóni“ úr Seðlabankanum í dag.

Greiningardeild Landsbankans telur einnig að Seðlabankinn standi við lækkunarferilinn sem hann birti í Peningamálum og að stýrivextir lækki ekki fyrr en í nóvember og verði 13,75 prósent um áramótin. Spá greiningardeildarinnar nú er seinkun frá fyrri spá um stýrivaxtalækkun.

Í nýju sérriti um stýrivaxtaspá er þannig talið ósennilegt að vextir verði lækkaðir í byrjun september og bent á að í september séu yfir 80 milljarðar króna jöklabréfa á gjalddaga og því hætta á að krónan veikist ef vaxtamunur minnki hratt. „Horfur á áframhaldandi viðskiptahalla á næstu árum setja einnig þrýsting á krónuna til veikingar til lengri tíma litið og þess vegna mun Seðlabankinn ekki flýta sér um of við vaxtalækkanir,“ segir greiningardeild Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×