Skoðun

Skandinavíska fyrirmyndin

Jón Sigurðsson skrifar
Stjórnarandstæðingar tala mikið um „skandinavísku fyrirmyndina“. Víst er um það að Íslendingar telja samfélög Norðurlandaþjóðanna að flestu leyti til fyrirmyndar um velmegun, jöfnuð, menningu og almenna hagsæld. Það er aftur á móti ekki þar með sagt að Íslendingar telji skandinavísk samfélög að öllu leyti til eftirbreytni, og má nefna ýmis atriði í því sambandi.

Danir og Svíar bera þyngstu skattbyrði allra þjóða. Persónulegir skattar í Danmörku geta náð upp í 59% og Svíar eru heimsmeistarar – með öfugu forteikni – með skatta sem geta náð upp í 60%.

Skattar á atvinnurekstur eru líka miklu hærri í þessum löndum en á Íslandi á síðustu árum. Ríkisstjórn Íslands hefur einmitt náð glæsilegum árangri með miklum lækkunum á skattbyrðum atvinnulífsins um leið og tekjur ríkissjóðs af sköttum atvinnufyrirtækja hafa hækkað og aukist geysilega.

Sama máli gegnir um fjármagnstekjuskatt í Skandinavíu, að hann er miklu hærri en á Íslandi.

Á því leikur ekki vafi að ef sú stefna stjórnarandstæðinga nær fram að ganga að laga Ísland eftir þessum skandinavísku fyrirmyndum, þá mun það valda miklu uppnámi í viðskiptalífinu og hrekja bæði fyrirtæki og hátekjufólk úr landi.

Þetta er sjálfsagt það sem vakir m.a. fyrir Ögmundi Jónassyni alþingismanni þegar hann sagði að það væri mikilvægara að halda „jöfnuði“ hér heldur en að halda fjármálafyrirtækjunum á Íslandi. Hann vill jafna niður á við í samfélagi með afturför og tekjuminnkun, í stað þess að halda áfram að byggja á þeim glæsilega árangri sem stefna ríkisstjórnarinnar hefur náð.

Stjórnarandstæðingar virðast þannig vilja stefna að þeirri öfugsnúnu „útrás“ sem að hluta hefur einkennt skandinavísku löndin.

Fleiri atriði má nefna sem Íslendingar munu varla sækjast eftir úr hinni skandinavísku fyrirmynd. Má þar nefna ýmsar reglur sem vinna gegn sveigjanleika á vinnumarkaði og valda því m.a. að atvinnuleysi hefur verið landlægt þar, eða um þrisvar sinnum meira en Íslendingar hafa vanist síðan framsóknarmenn komust til valda hér á landi fyrir tólf árum.

Höfundur er formaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×