Lífið

Stjáni stuð aftur á öldur ljósvakans

Stjáni stuð verður með þátt á nýrri útvarpsstöð sem fer í loftið á næstu dögum.
Stjáni stuð verður með þátt á nýrri útvarpsstöð sem fer í loftið á næstu dögum.

"Mér líst æðislega á þetta. Ég verð með svipaðan þátt og ég var með, leiki og skemmtilegheit," segir Kristján Þórðarson útvarpsmaður, eða Stjáni stuð eins og hann er jafnan kallaður. Stjáni mun stjórna helgarþætti á nýrri útvarpsstöð þeirra Capone-bræðra, Búa Bendtsen og Andra Freys Viðarssonar. Stöðin kallast Reykjavík FM og fer í loftið á allra næstu dögum. Tíðni nýju stöðvarinnar verður að líkindum 105.

Þó nokkuð er liðið síðan Stjáni stuð var síðast á öldum ljósvakans. Það er því mikið tilhlökkunarefni fyrir hann og aðdáendur hans að von sé á endurkomu meistarans. Aðdáendurnir þurfa þó ekki að kvíða því að kappanum hafi farið aftur meðan á fjarveru hans stóð. Stjáni er nefnilega með æfingastúdíó heima hjá sér sem hann kallar Bylgjan 2. Eins og áður verður eiginkona hans honum stoð og stytta í útsendingum.

"Já, Soffía verður með mér og svarar í símann. Henni finnst mjög gaman að vera með mér," segir Stjáni kokhraustur. Hann fagnar því sérstaklega að mega spila gamla og góða músík eins og Rolling Stones og Bítlana. "Þarna má ég spila tónlist sem ég fíla, ég mátti það aldrei á X-inu enda hef ég aldrei fílað tónlistina á X-inu.

"Stjáni er góður vinur minn og á skilið að vera í loftinu," segir Búi Bendtsen sem verður útvarpsstjóri á stöðinni. Auk Capone-bræðra verða þeir Doddi litli og Ómar Bonham með þætti á Reykjavík FM.



 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.