Lífið

Bubbi Morthens þjarmar að tónlist.is

„Í raun og veru er allt í góðu á milli okkar og Bubba. Í lok apríl munum við opna nýjan vef, Tónlist punktur is, og þá mun Bubbi detta inn öflugri en nokkru sinni fyrr," segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri vefjarins tonlist.is.

Bubbi Morthens, konungur hins íslenska rokks, gerði sér lítið fyrir og dró alla sína tónlist þá sem gefin hefur verið út á sóló-plötum sínum út af tonlist.is.

„Bubbi er „rebell" og trúr sínu eðli," segir Eiður Arnarson, útgáfustjóri íslenskrar tónlistar hjá Senu, sem gefur tónlist Bubba út. Eiður segir Bubba í fullum rétti til þess. Kröfur Bubba lúta að verðlagningu á sölu tónlistar á efnum. Þar er ekki gert ráð fyrir mismunandi verðlagningu og ný og áður óútgefin tónlist selst á því sama og gamlar lummur.

„Fyrst ekki var hægt að verða við þeim nauðsynlegu breytingum strax varákveðið að kippa allri tónlist Bubba út en hún mun koma inn um leið og breytingar hafa verið gerðar. Bubbi hugsar þetta til að flýta fyrir breytingum," segir Eiður.

Stefán vill ekki gera mikið úr þessu fremur en Eiður. Segir vefinn verða mikið breyttan í lok apríl með áður óþekktum eiginleikum og þjónustan mikið endurbætt.

„Þá mun kóngurinn leika stórt hlutverk þar inni. En við verðum Bubbalaus að mestu leyti í einn eða tvo mánuði. Við berum mikla virðingu fyrir honum, söknum hans eins og aðrir en hlökkum til þegar hann kemur inn á ný."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.