Lífið

BBC fjallar um ísfirska fegurðarkeppni

Fyrirhuguð fegurðarsamkeppni hefur vakið athygli utan landsteinanna og viðtal við Matthildi var sent út á BBC í gær.
Fyrirhuguð fegurðarsamkeppni hefur vakið athygli utan landsteinanna og viðtal við Matthildi var sent út á BBC í gær.

Fyrirhuguð fegurðarsamkeppni á Ísafirði, þar sem aukakíló, hrukkur og húðslit munu teljast keppendum til tekna, hefur vakið athygli utan landsteinanna og fréttir af henni hafa birst á erlendum vefmiðlum.

Þegar Fréttablaðið talaði í gær við Matthildi Helgadóttur, einn skipuleggjenda keppninnar, beið útvarpsviðtal við hana útsendingar hjá BBC. „Ég hélt að þetta væri símahrekkur þegar þau hringdu frá BBC. En hún er búin að tala við mig nokkrum sinnum, konan, svo ég er orðin nokkuð viss um að svo sé ekki,“ sagði Matthildur, sem hefur varla haft vinnufrið fyrir fyrirspurnum undanfarna daga.

Hún segir athyglina hafa komið skemmtilega á óvart, en sýna greinilega að mikill áhugi sé fyrir málefninu. „Grunnhugmyndin hjá okkur er að sýna fáránleikann í því að keppa í fegurð. Við erum ekki að segja neitt sem hefur ekki verið sagt áður, en kannski á nýjan hátt. Og kannski er jarðvegurinn frjór núna. Tískuheimurinn er meira að segja farinn að spá í að það gæti verið til eitthvað sem heitir of mjótt,“ sagði Matthildur.

Athyglin hefur fleiri góðar afleiðingar. „Með meiri umfjöllun vilja fleiri taka þátt, og það er auðveldara að fá styrktaraðila,“ sagði Matthildur. Það þykir aðstandendum keppninnar sérlega ánægjulegt, þar sem allur ágóði mun renna til Sólstafa, nýstofnaðra systursamtaka Stígamóta á Vestfjörðum. „Þetta er mjög þarft málefni og við viljum sýna virðingu okkar í verki,“ sagði Matthildur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.