Viðskipti erlent

Forstjórinn hættir í sumar

Pelle Törnberg. Forstjóri sænska útgáfufélagsins Metro International ætlar að hætta í sumar.
Pelle Törnberg. Forstjóri sænska útgáfufélagsins Metro International ætlar að hætta í sumar. MYND/AFP

Pelle Törnberg, forstjóri sænsku fríblaðaútgáfunnar Metro International, hefur ákveðið að láta af störfum í lok sumars. Törnberg er frumkvöðull á sviði dagblaðaútgáfu en hann, ásamt öðrum, ýtti fríblaðinu Metro úr vör á götum Stokkhólms árið 1995.

Metro International er með stærstu dagblaðaútgáfum í heimi og gefur út dagblöð í um 20 löndum sem ná til 22,8 milljóna lesenda á degi hverjum. Útgáfufélagið hefur frá upphafi skilað hallarekstri, sem skrifast að mestu á mikinn vöxt blaðaútgáfunnar.

Reksturinn hefur batnað eftir því sem hægt hefur á vextinum og var síðasta ár í plús. Hagnaðurinn þá nam 13 milljónum bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 888 milljóna íslenskra króna, samanborið við 7 milljóna dala, 478 milljóna króna, tap árið á undan. Þá námu tekjur félagsins 416,5 milljóna dala, jafnvirði 32,6 milljarða íslenskra króna, sem er 16 prósenta aukning á milli ára.

Breska dagblaðið International Herald Tribune hefur eftir Törnberg, sem er fimmtugur að aldri, að þegar útgáfa Metro hófst hafi hann ákveðið að stíga frá borði útgáfufélagsins um leið og gott stjórnendateymi væri komið að blaðaútgáfunni. Það sé raunin og því hafi hann ákveðið að snúa sér að öðrum störfum, að sögn dagblaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×