Viðskipti erlent

Tchenguiz horfir á fasteignir M&B

Robert Tchenguiz lítur girndaraugum á fasteignahluta M&B.
Robert Tchenguiz lítur girndaraugum á fasteignahluta M&B.

Robert Tchenguiz, breski fasteignamógúllinn og náinn viðskiptafélagi Kaupþings, er kominn með fimmtán prósenta hlut í kráar- og veitingahúsakeðjunni Mitchell & Butlers (M&B). Bréfin eru á nafni fjárfestingarfélagsins Violet Capital Group.

Á síðasta ári lögðu Kaupþing og Tchenguiz fram óformlegt tilboð í M&B upp á 360 milljarða króna auk vaxtaberandi skulda sem stjórnendur félagsins litu á að væri fjandsamlegt og meinuðu því tilboðsgjöfum aðgang að bókum félagsins.

Tchenguiz er spenntur fyrir miklum fasteignum M&B og skorar á stjórn félagsins að setja fasteignir inn í sérstakan fjárfestingarsjóð. „Við munum koma og gera okkur gildandi ef þeir [stjórn M&B] gera ekkert á næstu misserum,“ segir Tchenguiz við Daily Telegraph.

Hlutabréf í M&B hafa stigið upp um rúm 85 prósent á einu ári sem þakka má vangaveltum um yfirtöku sem og ágætis innri og ytri vexti. Sala hefur aukist, einkum á mat, þrátt fyrir að reykingabann hafi tekið gildi á breskum ölstofum í mars í fyrra. Tim Clarke, forstjóri félagsins, varar þó við mikilli bjartsýni því vaxtahækkanir í Bretlandi geta slegið á neyslugleði landans.

Tchenguiz og Kaupþing stóðu saman að kaupum á Phase Eight ásamt öðrum fjárfestum í janúar og eru meðal stærstu hluthafa í Sampo í Finnlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×