Viðskipti erlent

Viacom gegn YouTube

Bandaríski fjölmiðlarisinn Viacom fór fram á það í síðustu viku að netveitan YouTube eyði 100.000 myndskrám af netþjónum sínum. Viacom segir skrárnar brjóta í bága við höfundarréttarlög og til sönnunar um að netveitan hafi trassað að setja upp hugbúnað sem síar efni sem varið er með höfundarréttarlögum frá öðru efni á netveitunni.

Fulltrúar Viacom og YouTube, sem bandaríska netleitarfyrirtækið Google keypti síðastliðið haust, hafa rætt málið svo mánuðum skiptir. Hafi Viacom óskað eftir því að YouTube greiddi fyrir notkunina með einhverjum hætti. Úr því varð ekki og því samþykkti YouTube að verða við óskum Viacom. Fulltrúar YouTube benda hins vegar á að niðurstaðan sé dapurleg því netverjar hafi mikinn áhuga á efni fyrirtækisins og því ætti Viacom að sjá hag sinn í því að dreifa og kynna efni sitt með þessu hætti.

Nokkur fyrirtæki í afþreyingargeiranum vestanhafs, þar á meðal bandaríska sjónvarpsstöðin CBS, hefur gefið YouTube leyfi til að vista og dreifa efni sínu. Önnur fyrirtæki eiga hins vegar enn í viðræðum við netveituna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×