Lífið

CoBrA-málari gefur

Carl-Henning Pedersen. Hinn aldni málari gefur verk til danska listasafnsins.
Carl-Henning Pedersen. Hinn aldni málari gefur verk til danska listasafnsins.

Danski málarinn Carl-Henning Pedersen, sem var einn þeirra sem tóku virkan þátt í CoBrA-hreyfingunni, gaf í vikunni fjörutíu verk til Listasafns danska ríkisins. Verkin er frá löngu tímabili, síðari hluta sjötta áratugarins til þess níunda. Carl-Henning er fjörgamall, fæddur 1913.

Síðastliðið sumar var sýning á verkum hans og fyrri eiginkonu hans Else Ahlfeldt í Sigurjónssafni frá sumardvöl þeirra hér á landi 1948 en þá áttu þau ásamt fjölda danskra málara verk á Haustsýningunni í Listamannaskálanum sem olli nokkrum kafla skilum í íslenskri myndlistarsögu. Vakti sýningin gríðarlega athygli meðal bæjarbúa og var afar vel sótt.

Gjöfin vekur athygli fyrir þá sök að þau hjón, Carl-Henning og Else, gáfu firnastórt safn verka sinna til safns sem helgað er verkum þeirra í Herning. Hafa forráðamenn í dönsku menningarlífi haft áhuga á að gera þar miðstöð fyrir CoBrA. Verk málara og listamanna sem tilheyra hópnum hafa hækkað mikið í verði á málverkamarkaði Vesturlanda á undanförnum misserum.

CoBrA-hreyfingin var stofnuð þann 8. nóvember 1948 af danska málaranum Asger Jorn og Hollendingnum Karel Appel og var nafnið sótt í upphafsstafi borganna Kaupmannahafnar, Amsterdam og Brussel. Hópurinn var starfandi um þriggja ára skeið og var í framlínu evrópskra myndlistarmanna á sínum tíma og hafði áhrif langt út fyrir sínar raðir. Félagar hans leituðu nýrra leiða í myndsköpun, sóttu kraft í myndlist frumstæðra þjóða og barna. Hópurinn var skorðaður milli súrrealistanna og marxismans og hafði klára stefnuskrá.

Svavar Guðnason tengdist CoBrA-hópnum og er víða nefndur í erlendum fræðiritum í myndlist í tengslum við hann, líkt og Carl-Henning og Else. Jorn var í vinfengi við Halldór Laxness og vann skreytingar fyrir hann fyrir alþjóðlega útgáfu við Söguna af brauðinu dýra sem nú er orðin illfáanleg.

Verk Carl-Henning og fleiri myndlistarmanna sem tengdust hópnum eru enn víða fáanleg í Evrópu, bæði einstök verk unnin með ýmissi tækni, og prent, bæði á uppboðsvefjum Bruun Mattson og Lauritz í Höfn og víðar á viðráðanlegu verði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.