Lífið

Capone í útvarpsrekstur

Capone ætla að reyna að koma til móts við aðdáendur sína sem eru í sárum eftir að útvarpsstöðinni XFM var lokað.
Capone ætla að reyna að koma til móts við aðdáendur sína sem eru í sárum eftir að útvarpsstöðinni XFM var lokað.

„Það er ekkert komið á hreint, ekki ennþá,“ segir Búi Bendtsen, annar stjórnandi morgunþáttarins sáluga Capone. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru hann og Andri Freyr Viðarsson að skoða þann möguleika að stofna nýja útvarpsstöð.

„Þetta er mikið mál,“ bætir Búi við og vill sem minnst segja. „Þetta er á frumstigi“, útskýrir hann.

Þeim félögum var sem kunnnugt er sagt upp á gamlársdag þegar útsendingum XFM og Kiss FM var hætt. Búi segir að þessi ráðstöfun hafi komið flatt upp á þá og að aðdáendur þáttarins hafi látið vel í sér heyra. „Þeir vilja fá okkur sem fyrst í loftið,“ bætir Búi við og segir þá róa að því öllum árum að ráða bót á þessum skorti. „Þetta eru enn bara þreifingar enda mikið mál að koma á fót heilli útvarpsstöð,“ segir Búi.

Hann fer þó ekki í felur með að þeir séu að athuga hvort þetta sé raunhæfur möguleiki og útilokar ekki að ef útvarpið gangi ekki upp komi sjónvarp til greina.

Andri Freyr sagðist vera spenntur fyrir þessum hugmyndum en vildi lítið tjá sig. „Já, hvað, það er ekki eins og maður hafi ekki gert þetta áður,“ segir hann kokhraustur. Bloggarinn Ómar Valdimarsson lét í veðri vaka á heimasíðu sinni að félagarnir væru komnir í samband við fjársterka aðila en Búi vísaði því alfarið á bug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.