Viðskipti erlent

Norrænir bankar metnir í hærra lagi

Stærstu bankar Norðurlanda eru of hátt verðmetnir um þessar mundir að mati Morgan Stanley og hefur hækkun þeirra verið keyrð áfram af auknum umsvifum í fjármálalífinu og getgátum um frekari samþjöppun í geiranum.

Sérfræðingar Morgan Stanley telja að þótt rými sé fyrir frekari hækkun á gengi bankanna, ef væntanleg uppgjör þeirra reynast umfram væntingar, styðja afkomuspár á næstu misserum ekki við núverandi verðmæti bankanna.

Bandaríski fjárfestingarbankinn, sem nýlega gat út jákvæða greiningu á Kaupþingi þar sem kom fram að bankinn muni taka þátt í samrunaferlinu, segir að vel horfi til fyrir afkomu Kaupþings á fjórða ársfjórðungi þó að kostnaður hafi aukist. Er Kaupþingi spáð 13.825 milljóna króna hagnaði á síðasta ársfjórðungi. Þóknunartekjur hafi vaxið hratt með aukinni markaðshlutdeild einkum í Danmörku og þá hafi stórir eignarhlutir bankans í Sampo og Storebrand hækkað hressilega á fjórðungnum: Sampo um fjórðung en Storebrand um fimmtán prósent.

Stjórnendur Kaupþings hafa ekki greint frá því opinberlega að bankinn eigi bréf í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×