Viðskipti erlent

Google ýtir undir bókalestur á netinu

Bandaríska netleitarfyrirtækið Google er sagt vera að leggja lokahönd á nýja þjónustu sem gerir netverjum kleift að hala niður heilum bókum af netinu og lesa ýmist í tölvum eða á öflugri gerðum farsíma á borð við BlackBerry.

Von forsvarsmanna Google er sú að netverjar geti nýtt þjónustuna til að leita ritverka á bókasöfnum með rafræna skráningu bóka á söfnum um allan heim.

Google ætlaði að ýta þjónustu sem þessari úr vör fyrir um tveimur árum en varð að draga í land í kjölfar harðrar gagnrýni frá hendi bókavarða, rithöfunda og fleiri, sem töldu fyrirtækið brjóta á höfundarrétti.

Að sögn Google er horft til þess að netverjar geti leitað ritverka á netinu og lesið sýnishorn úr þeim áður en heilu bókunum er halað niður.

Jens Redmer, framkvæmdastjóri bókaleitarþjónustu Google í Evrópu, bendir á að ýmiss konar þjónusta verði í boði og muni netverjar geta valið um að leigja bækur til skamms tíma eða kaupa heilu ritverkin sem þeir geti lesið á tölvuskjánum.

Vefritið Cnet bendir hins vegar á að enn sé langt í land að Google geti ýtt verkefninu úr vör. Rafrænar bækur á netinu hafi langt í frá slegið í gegn og muni það velta á lesendunum sjálfum hvort Google hafi hitt á gullæð á netinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×