Viðskipti erlent

Álrisi fæðist í apríl

Samkeppnisyfirvöld í Rússlandi gáfu í síðustu viku græna ljósið fyrir samruna álfyrirtækjanna Rusal, Sual og svissneska félagsins Glencore. Með samrunanum verður til umsvifamesti álrisi í heimi og veltir bandaríska álfyrirtækinu Alcoa í annað sætið yfir stærstu álfyrirtæki heims.

Markaðsvirði þessa þríhöfða álrisa nemur 23 milljörðum evra sem jafngildir tæpum 2.100 milljörðum króna. Framleiðslugetan nemur fjórum milljónum tonna á ári sem er 12 prósent af heildarframleiðslu á áli í heiminum.

Samkeppnisyfirvöld reikna með að gatan fyrir samrunann verði greið eftir viku en gert er ráð fyrir að ferlinu ljúki í apríl.

Samkvæmt samkomulagi fyrirtækjanna þriggja mun Rusal, sem fram til þessa hefur verið þriðji umsvifamesti álframleiðandi í heimi og hefur lýst yfir áhuga á byggingu álvers á Norðurlandi, gefa út nýtt hlutafé til handa hluthöfum Sual og Glencore. Rusal mun fara með stærsta hlutinn í sameinuðu félagi, 68 prósent.Sameinað fyrirtæki verður með starfsemi víðs vegar í Rússlandi auk þess sem það starfrækir verksmiðjur víða um heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×