Viðskipti erlent

Metmánuður í krónubréfaútgáfu

Janúar er stærsti mánuður í útgáfu krónubréfa frá upphafi. Alls hafa níu erlendir bankar gefið út krónubréf fyrir 61,5 milljarða króna í mánuðinum. Krónubréf eru skuldabréf gefin út í íslenskum krónum.

Í gær bættist nýr banki í hóp útgefenda, þýski bankinn NRW Bank, með tveggja milljarða króna útgáfu. Í fyrradag gaf austurríski bankinn Kommunal Kredit Austria út bréf fyrir þrjá milljarða. Hann hefur áður gefið út krónubréf en í minna magni. Í heildina nemur útgáfa krónubréfa nú 321 milljarði króna.

Mikil útgáfa krónubréfa styður við íslensku krónuna sem hefur styrkst um 2,6 prósent frá áramótum. „Til grundvallar styrkingunni liggur sú skoðun fjárfesta að gengi krónunnar komi ekki til með að lækka meira en sem nemur muninum á erlendum og innlendum vöxtum,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningardeildar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×