Lífið

Ástþór fram til forseta enn og aftur

Safnar nú kröftum úti í Danaveldi fyrir komandi forsetakosningar en Ástþór ætlar fram.
Safnar nú kröftum úti í Danaveldi fyrir komandi forsetakosningar en Ástþór ætlar fram.
„Ég er nú staddur úti í Danmörku. Að safna kröftum. Tók mér frí frá þessu en þegar nær dregur þá kemur það,“ segir Ástþór Magnússon athafnamaður aðspurður um það hvenær menn gætu farið að eiga á því von að rödd hans sem forsetaframbjóðanda fari að heyrast.

Ástþór ætlar fram og á síðu sem hann heldur úti, forsetakosningar.is, er teljari. Þar sem talið er niður til næstu forsetakosninga. Rétt rúmir 520 dagar samkvæmt teljara Ástþórs. Hann er þó ekki kominn í kosningastellingar enn sem komið er en hugsar sitt þar sem hann situr í Danaveldi. Ástþór segist ætla fram allt þar til friðarmálin verða komin á dagskrá á Bessastöðum. Ástþór hóf baráttu sína fyrir því að verða kosinn forseti árið 1996, þá undir slagorðinu „Virkjum Bessastaði“. Hafði ekki erindi sem erfiði en hefur reglulega, á fjögurra ára fresti, lýst yfir framboði eins og íslenskir kjósendur muna. Verður árið 2008 þar engin undantekning á. Nú þegar eru menn farnir að velta fyrir sér líklegum kandídötum á netinu og þannig hefur bloggarinn Steingrímur Sævarr Ólafsson stungið upp á Ólafi Ólafssyni sem kenndur hefur verið við Samskip. Síður er gert ráð fyrir því að Ólafur Ragnar Grímsson fari fram því einhvers staðar er haft eftir honum að ekki sé æskilegt að forseti sitji lengur en í 16 ár.

„Hann sagði nú reyndar á sínum tíma að hann ætlaði bara að sitja í tvö kjörtímabil þannig að það er langur vegur frá því að hann sé sjálfum sér samkvæmur,“ segir Ástþór og furðar sig á því að Ólafur hafi ekkert svo heitið geti beitt sér á alþjóðavettvangi í friðarmálum – sem hann segir algera nauðsyn að koma á dagskrá. Heimurinn á hverfanda hveli.

„Þetta eru tvö stærstu mál samtímans. Friðarmálin og umhverfismálin. Ef við gerum ekkert í friðarmálum útrýmum við okkur með kjarnorkuvopnum á næstunni og ef ekkert er gert í umhverfismálunum drukknum við í eigin skít.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.