Lífið

Frábærlega skemmtilegt frisbí

 Freydís Vigfúsdóttir segir íþróttina vera frábærlega skemmtilega.
Freydís Vigfúsdóttir segir íþróttina vera frábærlega skemmtilega. MYND/Vilhelm

Innan veggja Háskóla Íslands starfar Flugdiskafélag stúdenta, fyrsta og eina íþróttafélag sinnar tegundar á landinu. Það kemur saman í Hagaskóla á mánudagskvöldum til að iðka íþrótt að nafni Ultimate frisbee. „Þetta er mjög einfalt sport og maður er fljótur að læra það. Ég kunni sjálf ekkert þegar ég byrjaði, hafði bara komið við frisbí í einhverju gríni,“ sagði Freydís Vigfúsdóttir, forseti frisbífélagsins.

Félagið var stofnað síðastliðið haust, að frumkvæði skiptinemans Björn Thomas frá Þýskalandi. Leikið er eftir föstum reglum, sem Freydís segir líkjast blöndu af körfubolta og amerískum fótbolta. „Maður má bara taka svona stjörnuskref þegar maður er með diskinn, eins og í körfubolta. Og svo skorar maður með því að félagi manns grípur frisbídiskinn innan ákveðins svæðis,“ útskýrði hún.

Félagið á við nokkra manneklu að stríða eins og stendur og vill ólmt fá fleiri Íslendinga til liðs við sig. „Það eru þeir sem munu halda þessu gangandi. Svo viljum við líka bara geta skráð okkur hjá ÍSÍ og orðið almennilegt félag,“ sagði Freydís. „Við stefnum á að þetta sport verði kynnt fyrir Íslendingum, það er alveg frábærlega skemmtilegt. Það eru allir velkomnir á æfingu,“ sagði hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.