Lífið

Sár og svekktur ef satt reynist

Sigurður Þ. Ragnarsson ætlar að leggja málið fyrir dómefndina og yfirgrafíkerinn.
Sigurður Þ. Ragnarsson ætlar að leggja málið fyrir dómefndina og yfirgrafíkerinn.

„Það hringdi í mig maður skömmu eftir að keppninni lauk og sagði að verðlaunamyndin væri fölsuð. Ég var með atvinnuljósmyndara í dómnefndinni sem gerði engar athugasemdir við hana,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, veðurfréttamaður á Stöð 2, en að undanförnu hefur tölvupóstur gengið manna á milli þar sem því er haldið fram að sigurmynd veðurljósmyndakeppni Stöðvar 2 sé óekta.

„Ég stend alveg berskjaldaður gagnvart þessu og mér þykir þetta mjög sárt ef satt reynist,“ bætir Sigurður við.

 

Falsað eða ekki falsað? Greinilegt er að sá sem heldur þessu fram hefur lagt mikið á sig við að sanna sitt mál.

Í tölvupóstinum er því haldið fram að fjall sem sjáist á myndinni sé alls ekki við Jökuls-árlón og að speglunin í vatninu í forgrunni gangi ekki upp. Það styðji þá hugmynd að ljósmyndin sé tekin í dagsbirtu en ekki að kvöldi. Sigurður útskýrir að ekki hafi verið neitt sem hafi bannað notkun á photoshop-ljósmyndaforritinu. „Ég ætla að ráðfæra mig við dómnefndina og yfirgrafíkerinn vegna þessa,“ sagði Sigurður.

Fréttablaðið hafði samband við Þorstein Ásgeirsson, ljósmyndarann sem tók sigurmyndina, og hann vísaði þessum fullyrðingum algjörlega á bug. „Einhverjir hafa verið að bera út gróusögur um að myndirnar í efstu sætunum séu falsaðar en mín er það ekki,“ lýsir Þorsteinn yfir. Hann segir myndina vera fjögurra ára gamla og að hún sé tekin í átt að brúnni. „Hið meinta fjall er sennilega einhver hluti af Öræfajökli,“ útskýrir Þorsteinn sem jafnframt segist varla kunna á photoshop-forritið. „Þetta er bara eitthvert rugl og sennilega bara sama gamla sagan, öfund,“ bætir hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.