Innlent

Björgunarvesti látins sjóliða sagt hafa rifnað

Varðskipið Triton í Reykjavíkurhöfn.
Varðskipið Triton í Reykjavíkurhöfn.

Vesti danska sjóliðans af varðskipinu Triton, sem drukknaði í björgunaraðgerðum úti fyrir Sandgerði í morgun, rifnaði þegar björgunarbátnum hvolfdi. Frá þessu greinir Jótlandspósturinn. Þar segir einnig að tveir af félögum hans hafi reynt að halda honum á floti en að galli hans hafi smám saman fyllst af vatni og hann því orðið æ þyngri. Lögregla fann líkið af sjóliðanum síðar í dag.

Fram kemur á vef Jótlandspóstsins að maðurinn hét Jan Nordskov og var 25 ára. Hinum sjö skipverjunum af Triton sem voru björgunarbátnum var bjargað og þeir fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem þeir voru lagðir inn til aðhlynningar. Sex þeirra hafa verið útskrifaðir en einn ofkældist og mun væntanlega dvelja á sjúkrahúsinu til morguns.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að yfirheyrslur vegna slyssins hefjist í dag en yfirheyra þarf á þriðja tug manna vegna þessara tveggja sjóslysa. Aðgerðum vegna mengunarvarna verður haldið áfram á strandstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×