Erlent

Hamas ekkert annað en hryðjuverkasamtök

Ehud Olmert, starfandi forsætisráðherra Ísraels, segir árásir verða gerðar á forystumenn Hamas-samtakanna ef samtökin hefja árásir á Ísrael á ný. Hann segir Hamas ekkert annað en hryðjuverkasamtök.

Olmert segir þá stefnu Ísraelsmanna að ráða af dögum palestínska áhrifamenn hafa borið árangur og verði haldið áfram. Enginn þeirra myndi njóta friðhelgi, ekki einu sinni Ismail Haniyeh, forsætisráðherraefni Hamas-samtakanna. Samtökunum er kennt um 60 sjálfsvígsárásir í Ísrael síðan uppreisn Palestínumanna hófst árið 2000. Ísraelsmenn hafa ráðið af dögum nokkra af forystumönnum Hamas á undanförnum árum þar á meðal Ahmed Yassin einum af stofnendum Hamas. Þá lýsti Olmert því yfir í dag að Kadima-flokkur hans og Sharons, forsætisráðherra, ætli að draga stórlega úr styrkjum til landtökumanna Gyðinga á Vesturbakkanum. Hann sagði að peningunum yrði frekar varið til uppbyggingar annarsstaðar í Ísrael á næstu árum. Áhersla yrði lögð á Jerúsalem, Negev-eyðimörkina og Galíleu í Norður-Ísrael. Búast má við að yfirlýsing Olmerts í dag hleypi öllu í bál og brand nú þegar aðeins þrjár vikur eru til kosninga í landinu. Margir kjósendur hafa ekki fyrirgefið ríkisstjórninni fyrir að fyrirskipa brottflutning landtökumanna frá Gasaströndinni og hluta Vesturbakkans í fyrra. Kadima flokkur Sharons forsætisráðherra og Olmerts mælist nú með mest fylgi í könnunum nú, en óvíst hvaða áhrif yfirlýsingin í dag hafi á mælingar næstu daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×