Innlent

Flæðir inn í kjallara Selfosskirkju

Björgunarfélag Árborgar vinnur nú að því að tæma kjallara Selfosskirkju þar sem allt er á floti, að sögn upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Björgunarsveitarmenn hafa þurft að aðstoða lögreglumenn við að stugga forvitnu fólki frá árbakkanum, þar sem bæði börn og fullorðnir hafa hætt sér tæpara en góðu hófi gegnir.

Þá hafa björgunarmenn í Árnessýslu þurft að bjarga um 30 hestum á Ólafsvöllum á Skeiðum og rösklega 100 hestum við Auðsholt í Hrunamannahreppi. Allar björgunarsveitir í Árnessýslu hafa verið settar í viðbragðsstöðu en aðeins Björgunarfélagið Eyvindur og Björgunarfélag Árborgar hafa farið í verkefni að svo stöddu.

Fyrir norðan hafa björgunarsveitir þurft að aðstoða innlyksa bíla við Djúpadalsá, þar króuðust þrír bílar inni þegar stífla brast þar í morgun. Einnig hafa þeir verið við hreinsunarstörf við Grænuhlíð, dregið kálfshræ út úr fjósi og mokað aur út úr íbúðarhúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×