Innlent

Nýtt varðskip til um mitt ár 2009

Teikning af nýja varðskipinu
Teikning af nýja varðskipinu
Reikna má með því að nýtt varðskip verði komið í flota Landhelgisgæslu Íslands um mitt ár 2009 en samningur um smíði þess var undirritaður í dag. Það gerðu Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands ásamt Carlos Fanta de la Vega, forstjóra skipasmíðastöðvarinnar ASMAR í Chile, sem átti lægsta tilboð í smíði skipsins.

Fram kemur í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu að varðskipið verði mun stærra, öflugra og betur búið en þau varðskip sem nú eru í rekstri. Ægir og Týr eru um 71 m á lengd og 10 á breidd og um 1.300 brúttótonn en nýtt varðskip verður 93 m á lengd, 16 m á breidd og 4.000 brúttótonn. Þá verður togkraftur þess um 100 tonn miðað við um 56 tonna togkraft á Ægi og Tý.

Einnig kemur fram í tilkynningunni að skipasmíðastöðin ASMAR hafi alls smíðað fjögur skip fyrir Íslendinga og þar er nú verið að smíða einn fullkomnasta togara heims fyrir Færeyinga. Skipasmíðastöðin hafi því aflað sér mikilvægrar reynslu varðandi þær kröfur sem gerðar eru fyrir skip til siglinga á Norður-Atlantshafi. Rolls Royce í Noregi hannar skipið og leggur til ýmsan búnað í það.

 

Skipið kostar 29,4 milljónir evra í smíði eða nærri 2,7 milljarða króna. Smíðatími skipsins 30 mánuðir og verður því nýtt varðskip komið í flota Landhelgisgæslu Íslands um mitt ár 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×