Innlent

Lyngdalsheiðin orðin ófær vegna vatnavaxta

Lyngdalsheiði, sem liggur milli Þingvalla og Laugarvatns er orðin ófær vegna vatnavaxta og bætist þar með í hóp vega á Norður- og Suðurlandi sem lokast hafa vegna þess. Skeiðavegur er ófær þar sem Hvítá flæðir yfir veginn við Brúarhlöð og þá er Auðsholtsvegur, vegur 340, ófær vegna vatnavaxta við bæinn Auðsholt.

Þar reyna björgunarsveitarmenn frá Flúðum að bjarga um 100 hrossum sem hafa orðið innlyksa á hæðum í kringum bæinn vegna vatnavaxtanna. Þá er ófært vegna vatnaskemmda við Ferjukot í Borgarfirði.

Í Eyjafirði loka skriður vegi á þremur stöðum, á Hörgárdalsvegi við bæinn Skriðu, á Hólavegi við Grænuhlíð og á Eyjafjarðarbraut vestri er skriða í námunda við Skáldstaði. Eyjafjarðarbraut vestri er einnig í sundur vegna flóðs við Samkomugerði og má búast við að viðgerð þar taki einhverja daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×