Erlent

Átta létust í Kína af völdum fellibyls

KONA Á HJÓLI Í SJANGHAÍ Geysileg rigning hefur verið í Suður-Kína í dag vegna fellibylsins Chanchu.
KONA Á HJÓLI Í SJANGHAÍ Geysileg rigning hefur verið í Suður-Kína í dag vegna fellibylsins Chanchu. MYND/AP

Átta létu lífið, þar af tvö börn, þegar fellibylurinn Chanchu skall á suðurströnd Kína í morgun. Bylurinn hafði áður orðið þrjátíu og sjö að bana á Filippseyjum. Hátt í milljón manns hefur þurft að yfirgefa heimili sín í Suður-Kína vegna bylsins.

Bylurinn hefur farið vaxandi undan ströndum landsins undanfarna daga en hann er sá öflugasti sem hefur geisað á Suður-Kínahafi á þessum árstíma. Snemma í morgun þokaðist hann að strönd Suður-Kína á um tuttugu og fimm kílómetra hraða en vindhraði í miðju stormsins er tæplega hundrað og sextíu kílómetrar á klukkustund. Hátt í tvö hundruð heimili eru nú á floti og fór rafmagn af stóru svæði í nótt. Nokkur flugfélög hafa fellt niður fyrirhugað flug til og frá svæðinu og tugþúsundir skipa hafa verið kölluð til hafnar.

Átta hafa látist í veðurhamnum, þar á meðal tvö börn sem grófust undir rústum húss sem hrundi ofan á þau í Guangdong-kantónu í morgun. Þar með hefur bylurinn orðið fjörutíu og fimm að bana en þrjátíu og sjö manns létust þegar fellibylurinn gekk yfir Filippseyjar fyrr í vikunni. Auk þess er tuttugu og sjö kínveskra sjómanna saknað. Þeir voru um borð í þremur bátum sem sukku í veðurofsanum.

Þrátt fyrir hörmungar morgunsins er bylurinn sagður í rénun og er talið að hann verið genginn yfir svæðið og út á haf snemma í fyrramálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×