Erlent

Mótmælt við sendiráð Finna og Svía

MYND/AP

Sendiráð Finna og Svía í Buenos Aires í Argentínu urðu fyrir barðinu á æfum mótmælendum sem segja áætlanir um byggingu trjákvoðuverksmiðja í nágrannaríkinu Úrúgvæ skaða landbúnað og ferðamannaiðnað í Argentínu. Finnskt og sænskt fyrirtæki taka þátt í framkvæmdunum.

Argentínumenn búsettir við landamærin að Úrúgvæ hafa mótmælt framkvæmdunum um nokkurt skeið og í gær létu þeir reiði sína bitna á sendiráðum Finna og Svía. Fyrirhuguð er bygging trjákvoðuverksmiðja í Úrúgvæ, nálægt landamærunum að Argentínu, og kemur finnskt fyrirtæki að rekstri einnar þeirra í samvinnu við Svía.

Argentínumenn segja verksmiðjurnar verða umhverfisslys, menga ræktarland í norðausturhluta Argentínu og leggja ferðamannaiðnaðinn á svæðinu í rúst. Til að undirstrika andstöðu sína köstuðu mótmælendur dauðum fiskum að sendiráðum Svía og Finna og börðu bumbur til að undirstrika andstöðu sína. Málið hefur skaðað samskipti Argentínumanna og Úrúgvæja en þau hafa hingað til verið góð. Yfirvöld í Úrúgvæ segja engan umhverfisskaða verða af verksmiðjunum og hafa heitið því að framkvæmdum verði fram haldið hvað sem tauti og rauli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×