Innlent

Skagafjörður eins og hafsjór yfir að líta

Skagafjörður er nú eins og hafsjór yfir að líta en Héraðsvötnin eru stífluð á tveimur stöðum. Hópar björgunarsveitarmanna hafa í dag reynt, við erfiðar aðstæður, að bjarga hrossum sem orðið hafa innlyksa.

Miklar rigningar hafa verið í Skagafirði, líkt og víðar á landinu. Í dag mynduðust svo klakastíflur í Héraðsvötnum og hækkaði ört í vötnunum, svo ört að bændur uggðu ekki að sér og náðu ekki að bjarga hrossum sínum í hús í tæka tíð.

Allar björgunarsveitir í Skagafirði voru ræstar út klukkan tíu í morgun til að hjálpa bændum að ná hrossum sínum úr sjálfheldu á eylendi Skagafjarðar.

Björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitinni Gretti, Skagfirðingasveit og Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð hafa í dag farið um svæðið á bátum og reynt að reka hrossin, sem eru í nokkrum hópum, á örugga staði.

Gengið hefur á með éljum í dag og leiðindaveður hefur verið. Nokkuð hefur því bætt í vötnin. Skagafjörður er nú eins og hafsjór yfir að líta. Flætt hefur yfir vegi að bæjunum Húsabakka eitt og tvö og eru þeir nú umflotnir vatni.

Mikið hefur reynt á björgunarsveitarmenn í dag, enda verkefnið erfitt. Ekki tókst að bjarga öllum hrossunum fyrir myrkur og óvíst að það takist fyrr en á morgun. Björgunarsveitarmenn verða að störfum fram eftir kvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×