Innlent

Efri stíflan í Djúpadalsvirkjun brast í úrhellinu

Frá vettvangi í Grænuhlíð í morgun þar sem þrjár skriður alls féllu á og við bæinn.
Frá vettvangi í Grænuhlíð í morgun þar sem þrjár skriður alls féllu á og við bæinn. MYND/Stöð 2
Efri stíflan í Djúpadalsvirkjun í Eyjafjarðarsveit, skammt frá Melgerðismelum, brast í úrhellinu í morgun og æddi flóðbylgja niður ána og yfir Eyjafjarðarveg vestri þannig að hann rofnaði. Þurftu björgunarsveitir, lögregla og slökkvilið meðal annars að bjarga manni eftir að bíll hans lenti úti í ánni en honum varð ekki meint af volkinu.

Á þeim stað þar sem vegurinn rofnaði urðu þrír bílar innlyksa vegna vatnavaxtanna, þar á meðal lögreglubílar, en Björgunarsveitin Súlur á Akureyri bjargaði þeim. Jafnframt var þyrla Landhelgisgæslunnar send norður í land til að vera til taks. Þá fékk björgunarsveitin Dalbjörg í Eyjafirði tilkynningu um tvo aðra bíla sem sætu fastir og er hún að sinna því útkalli.

Þær upplýsingar fengust hjá svæðisstjórn Landsbjargar í Eyjafirði að sjatnað sé í Djúpadalsá en sem fyrr segir er Eyjafjarðarbraut vestri í sundur vegna flóðanna og má búast við að viðgerð þar taki einhverja daga.

Þá munu björgunarsveitarmenn frá Dalbjörgu í Eyjafirði vera stadddir í Grænuhlíð þar sem aurskriður féllu í morgun á íbúðahús og útihús. Á annan tug kálfa mun hafa drepist í aurskriðu sem féll rétt fyrir sjö en engan sakaði þegar önnur skriða féll um kl. 11




Fleiri fréttir

Sjá meira


×