Innlent

Forðuðu sér undan skriðunni við Grænuhlíð

Frá Grænuhlíð í morgun.
Frá Grænuhlíð í morgun. Vísir
Hjón og barn þeirra sluppu ómeidd út úr íbúðarhúsi sínu að Grænuhlíð í Eyjafjarðarsveit í morgun, þegar aurskriða féll á íbúðarhúsið og gripahúsin. Fólk átti svo fótum sínum fjör að launa þegar önnur skriða féll um ellefuleytið í morgun. Talið er tíu til fimmtán kálfar hafi drepist í fyrri skriðunni.

Fólkið komst á dráttarvél yfir skriðuna í öruggt skjól á bænum Hrísum. Skriðusérfræðingur og lögreglumenn eru nú að kanna afdrif kúa og kinda, sem voru í útihúsunum, en rafmagn fór af húsunum þegar skriðan féll. Þegar er búið að finna nokkrar dauðar skepnur.

Þetta gerðist um sjöleytið í morgun og um svipað leiti féll að minnsta kosti hundrað metra breið skriða á þjóðvðeginn við Kolgrímustaði þar skammt frá og lokaði lögregla vegum á svæðinu. Bændum hefur verið hleypt um svæðið til að huga að búfénaði sínum og verið er að meta frekari skriðuhættu en það skýrist upp úr hádegi.

Gríðarleg úrkoma var á svæðinu í gærkvöldi og í nótt samfara hlýindum, þannig að leysing er mikil í hlíðum á þessu svæði, og reyndar víða á landinu.

Á tólfta tímanum féll önnur skriða í Grænuhlíð á milli íbúðarhússins og útihúsanna og áttu skoðunarmenn, bóndinn og frétamaður okkar fótum sínum fjör að launa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×