Innlent

Ekki Birkis mál að vekja athygli á svartri skýrslu um Byrgið

Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis segir það ekki hafa verið sitt hlutverk að vekja athygli nefndarinnar á svartri skýrslu um málefni Byrgisins. Slíkt sé hlutverk fagráðuneyta og Ríkisendurskoðunar.

Byrgið hefur fengið nærri 230 milljónir króna úr ríkissjóði síðustu ár, bróðurpartinn eftir að Birkir Jón varð þingmaður vorið 2003 og tók sæti í fjárlaganefnd þar sem hann hefur verið formaður síðasta árið. Fram að þeim tíma var hann aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Hann vissi því vel af tilurð svartrar skýrslu um fjármál Byrgisins frá því í janúar 2002 sem við höfum fjallað um síðustu daga hér á Stöð 2 þar sem skýrsluhöfundur gaf 8 mánuði til úrbóta. Ekki er hins vegar til nein úttekt eða opinber staðfesting á því að þessar úrbætur hafi nokkurn tíma verið gerðar.

Birkir segir stofnaða hafa verið sjálfseignarstofnun með öllum þeim kvöðum sem að því fylgja utan um starfsemina og hann standi í þeirri trú að menn fylgist með starfsemi af því tagi sem að Byrgið hefur veitt. Enda er verið að þjónusta þar fjöldann allan af einstaklingum. Hann segir það ekki hlutverk alþingismanna að leggjast í rannsóknir á hvernig að innri málum slíkra stofnana er háttað. Það er annarra að gera það.

Frekar verður fjallað um þetta mál í Íslandi í bítið í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×