Innlent

Hörð gagnrýni á rektor Háskólans á Akureyri

Rektor Háskólans á Akureyri var óvænt harðlega gagnrýndur á ársfundi skólans í dag. Deilt var á að starfsmannastefnu skorti auk þess sem ófaglega hafi verið staðið að uppsögnum kennara í ár. Rektor vísar því á bug.

Ársfundur Háskólans á Akureyri hafði á sér hefðbundið yfirbragð framan af. Farið var yfir rekstur og framtíðarsýn og þökkuðu rektor og framkvæmdastjóri skólans starfsmönnum skilning og farsælt samstarf á erfiðum tíma innan stofnunarinnar. Nú er bjart fram undan að sögn rektors enda komin aukafjárveiting frá ríkinu og búið að hagræða í rekstri með ýmsum hætti.

En lengst af ársins einkenndist starfsemin af fjárhagslegri óvissu og varð stjórn skólans að grípa til sársaukafullra sparnaðaraðgerða, fækka deildum og segja upp starfsfólki eins og Stöð 2 hefur greint frá. Undir lok fundarins voru leyfðar fyrirspurnir og þá stóð formaður kennarafélags skólans upp og fór mikinn. Hann sagðist því mjög ósammála að samstarf stjórnar og kennara hefði verið gott í ár og fetti einkum fingur út í tvö atriði.

 

 

Í fyrsta lagi sagði hann skólann ekki hafa haft neina starfsmannastefnu, þrátt fyrir að haga starfað í 20 ár. Hitt atriðið lýtur að uppsögnum, þar sem góðar vinnureglur við slíkar ákvarðanir hafi verið hunsaðar. Hann segir að uppsagnir hafi verið illa undirbúnar og ódrengilegar og að margt hafi gerst síðan sem sýni að ýmsar ákvarðanir hafi verið mjög misráðnar.

 

 

Rektor vildi ekki tjá sig um mál einstakra starfsmanna en viðurkennir að starfsmannastefnan sé ekki fyrir hendi enn. Það standi þó til bóta. Að öðru leyti kom fram á fundinum samhugur og mikill vilji til að auka vegsemd skólans og styrkja í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×