Innlent

Minna hlutfall ráðstöfunartekna fer í mat

Hlutdeild matvæla í heimilisútgjöldunum fer stöðugt lækkandi. Á tímabilinu 2002-2004 fóru 14,4% ráðstöfunartekna heimilanna í þennan lið, en á tímabilinu sem rannsóknin nær til, fóru aðeins 12,9% til kaupa á matvörum og óáfengum drykkjarvörum. Húsnæði, hiti og rafmagn er sem fyrr lang fjárfrekasti liðurinn og sá sem hækkar mest. Í hann fer fjórðungur þeirra fjármuna sem heimilin hafa til að spila úr. Ferðir og flutningar eru í öðru sæti, matur og drykkur eru ásamt tómstundum og menningu í þriðja til fjórða sæti. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á tímabilinu 2003-2005 og sagt er frá þessu á vef Landssambands kúabænda.

Landssambandið segir að skýrslan sýni, að liðurinn mjólk, ostar og egg hafi lækkað um tæplega 10.000 krónur og það þrátt fyrir lítilsháttar neysluaukningu á mjólkurvörum pr. íbúa allnokkura verðbólgu. Þetta enn ein staðfesting þess að hagræðing í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða hefur skilað sér beint í vasa neytenda. "Útgjöld vegna kaupa á kjöti standa í stað, á sama tíma og umtalsverð neysluaukning hefur orðið á þeim bæ, þannig að sama gildir um kjötið og mjólkina að neytendur fá meira af varningi fyrir minna af peningum," segir á vef Kúabænda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×