Innlent

Nýr miðbæjarkjarni í Garðabæ á næstu þremur til fjórum árum

Nýr miðbæjarkjarni rís í Garðabæ á næstu þremur til fjórum árum samkvæmt samkomulagi sem Garðabær og Klasi hf. hafa gert og verður undirritað á morgun.

Fram kemur í tilkynningu frá Garðabæ að miðbærinn verði byggður samkvæmt hugmyndum sem Klasi hefur þróað á síðastliðnum tveimur árum í samstarfi við Garðabæ og hagsmunaaðila á Garðatorgi. Samkvæmt hugmyndunum er gert ráð fyrir að húsið sem hýsir Hagkaup, Sparisjóð Hafnarfjarðar og Betrunarhúsið við Garðatorg verði rifið en í staðinn verður byggt þriggja hæða hús með risi sem myndar hring umhverfis Garðatorg með bílastæðum, verslunum, þjónustu og íbúðum.

Gert er ráð fyrir að byggðar verði um 200 íbúðir á hinu nýja Garðatorgi og að bílakjallari verði undir torginu. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að Klasi eigi verslunar- og þjónustuhúsnæði á svæðinu og getur þannig stýrt samsetningu verslana og þjónustu með heildarhagsmuni svæðisins í huga, eins og segir í tilkynningu.

Svæðinu sem samningurinn nær til er skipt í þrjá hluta. Svæði I er við Kirkjulund og er ætlað undir íbúðir, svæði II er við Garðatorg þar sem verða verslanir, þjónusta og íbúðir og svæði III, sem er við Hafnarfjarðarveg á svæði sem áður nefndist Sveinatunga, er ætlað undir verslun og þjónustu. Á svæði II stendur til að byggja húsnæði fyrir Hönnunarsafn Íslands í samræmi við samkomulag við menntamálaráðuneytið.

Í samningnum er kveðið á um að Klasi muni kosta vinnu við gerð deiliskipulagstillögu fyrir svæðin þrjú. Klasi greiðir jafnframt fyrir byggingarrétt á svæðunum en Garðabær skuldbindur sig til að úthluta Klasa þeim lóðum sem við á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×