Innlent

Hugsanlegt að kviknað hafi í út frá kertaskreytingu

Tvær manneskjur komust af sjálfsdáðum út úr úr brennandi kjallaraíbúð við Efstasund í Reykjavík laust fyrir klukkan sex í morgun, en voru fluttar á slysadeild vegna gruns um reykeitrun.

Fólkið vakti strax fjögurra manna fjölskylda á efri hæðinni og var hún líka komin út þegar slökkvilið kom á vettvang. Fólkið úr kjallaranum náði að grípa með sér hund en þegar út var komið uppgötvaðist að annar hundur, sem þau áttu, var enn inni en þá var ekki viðlit að fara aftur inn í reykkófið. Talsverður eldur logaði þá í stofunni í kjallaraíbúðinni og reykur og sót bárust upp á efri hæðina.

Eldurinn var slökktur á rúmum fimm mínútum og þá tók við að reykræsta húsið. Kom þá í ljós að hundurinn hafði kafnað og nokkrir hamstrar. Eldsupptök eru ókunn en íbúarnir telja líklegt að kviknað hafi í út frá kertaskreytingu.

Af þvi tilefni vill slökkviliðið minna fólk á að ganga vel frá kertum í slíkum skreytingum og muna að slökkva á þeim áður en gengið er til hvílu. Einnig að huga nú að reykskynjurum og ganga úr skugga um að rafhlöðurnar í þeim séu í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×