Innlent

Áfrýjunarnefnd staðfestir úrskurð Samkeppniseftirlits í kæru Mjólku

 

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að Osta- og smjörsalan hafi brotið gegn samkeppnislögum og misnotað markaðsráðandi stöðu sína gangvart Mjólku með því að selja Mjólku undanrennuduft á hærra verði en Ostahúsinu.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að Osta- og smjörsalan hafi brotið gegn samkeppnislögum og misnotað markaðsráðandi stöðu sína gangvart Mjólku með því að selja Mjólku undanrennuduft á hærra verði en Ostahúsinu.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Osta- og smjörsalan hefði með þessu mismunað kaupendum sínum en þá ákvörðun kærði Osta- og smjörsalan til áfrýjunarnefndar samkeppnismála í síðasta mánuði. Áfrýjunarnefndin segir í úrskurði sínum að skýrlega hafi verið leitt í ljós að Osta- og smjörslan hafi krafið Mjólku og Ostabúðina um mismunandi verð fyrir undanrennuduft og því beri að staðfesta ákvörðun Samkeppniseftilitsins.

Í tilkynningu frá Mjólku er haft eftir Ólafi M. Magnússyni forstjóra að staðfesting áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé mikil viðurkenning á málstað Mjólku og staðfesting á því að sú gagnrýni sem fram kom í úrskurði og áliti Samkeppniseftirlitsins um opinberar samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði, eigi við rök að styðjast. Því sé mikilvægt að landbúnaðarráðherra bregðist sem fyrst við þeim tilmælum sem Samkeppniseftirlitið beindi til hans í áliti sínu frá því í október síðast liðnum.

Þar segir einnig að í úrskurði Samkeppniseftirlitsins frá 13. október s.l. hafi komið fram að í framhaldi af niðurstöðu sinni um brot Osta- og smjörsölunnar gegn Mjólku hafi Samkeppniseftirlitið skoðað samkeppnisumhverfið í mjólkuriðnaðinum hér á landi og komist að þeirri niðurstöðu að ákvæði búvörulaga sem snúa að vinnslu og sölu mjólkur- og mjólkurafurða raski samkeppni og feli í sér mismunun gagnvart einstökum fyrirtækjum í mjólkuriðnaði og fari því gegn markmiðum samkeppnislaga.

Í áliti Samkeppniseftirlitsins var þeim tilmælum beint til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér fyrir því að afnema verð- og magntolla á mjólkurdufti til að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði. Jafnframt var þeim tilmælum beint til ráðherra að hann beiti sér fyrir afnámi lagaákvæða um verðtilfærslu afurðastöðva og afnámi heimildar til samráðs og samruna afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Loks var þeim tilmælum beint til ráðherra að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem starfa annars vegar innan Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) og hins vegar þeirra er starfa utan samtakanna.

Úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×