Innlent

Dagblöð ríflega fjórðungur alls heimilissorps

MYND/Stefán
Dagblöð eru fyrirferðamest alls sorps í heimilistunnum á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega fjórðungur innihalds þeirra samkvæmt könnun Sorpu sem gerð er árlega í nóvember. Greint er frá könnuninni á vef umhverfissviðs borgarinnar. Til samanburðar voru dagblöð 16 prósent húsasorps fyrir tveimur árum og 22 prósent í fyrra. Hlutur þeirra fer því vaxandi.

Þar segir einnig að 23 prósent innihaldsins séu matarleifar og plastumbúðir 13 prósent. Um tveir þriðju prentaðra dagblaða lenda í almennu sorpi en einum þriðja er skilað á grenndar- og endurvinnslustöðvar. Til samanburðar bendir umhverfissvið á að Danir nái að jafnaði um helmingi dagblaða til endurvinnslu.

Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri Neyslu- og úrgangsmála á Umhverfissviði Reykjavíkur, vill beina því til forsvarsmanna dagblaða að prenta á forsíðu eða baksíðu blaðanna merki um að varan sé endurvinnanleg. Það sé eðlileg ábending til lesenda og hvatning til að fara með blöðin í gám. Þetta tíðkist á ýmsum vörutegundum og er talinn kostur við vöruna. Mest safnast af blöðum í desember og í kringum sveitastjórnar- og Alþingiskosningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×