Innlent

Hætta á fjölgun berklasmita á Íslandi

Óttast er að tíðni berkla komi til með að aukast hér á landi með inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í Evrópusambandið. Tíðni berkla er há í þessum löndum og skapar það ákveðin vandamál.

Rúmenía og Búlgaría fá aðild að Evrópusambandinu um næstu áramót og íbúar þessara landa verða þar með aðilar að vinnumarkaði aðildarríkjanna. Þetta felur það í sér að komi Rúmenar eða Búlgarar hingað til lands til að dvelja og starfa þurfa þeir ekki lengur að gangast undir heilbrigðisskoðun. Hópurinn hefur hingað til þurft að framvísa heilbrigðisvottorði þegar sótt hefur verið um dvalar- og atvinnuleyfi og þurft að sýna berklapróf. Landamæri Íslands fyrir vinnuafl frá Rúmeníu og Búlgaríu verða þó ekki opnuð fyrr en 2009 þar sem Íslendingar ætla að nýta sér leyfðan aðlögunartíma.

Með inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í ESB mun berklatilfellum í sambandinu fjölga um 50%. Þórólfur Guðnason, yfirlæknir hjá sóttvarnarlækni, segir tíðni berkla lága hér á landi en svo geti farið að hér greinist fleiri með smitandi berkla.

Í desemberhefti Farsóttarfrétta sóttvarnarlæknis er greint frá því að það sem af er ári hafi níu greinst með berkla á Íslandi, þar af voru fjórir með erlent ríkisfang. Á undanförunum áratug hafa rúmlega eitt hundrað manns greinst með berkla á Íslandi en rúmur helmingur þeirra er með erlent ríkisfang. Flestir þeirra Íslendinga sem greinast með berkla hafa smitast á fyrri hluta síðustu aldar en ekki veikst fyrr en nú þegar ónæmiskerfið hefur tekið að veikjast sökum aldurs eða sjúkdóma.

Heilbrigðisráðherra getur sett reglugerð um að rannsaka sérstaklega tiltekinn hóp sem kemur til landsins, ef hætta er talin á að smit hættulegs sjúkdóms geti borist til landsins með fólki frá svæðum þar sem hann er útbreiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×