Innlent

Umhverfisráðherra dregur úrskurð langt fram yfir lögboðinn frest

Umhverfisráðherra er kominn rúmlega hálft ár fram yfir lögbundinn tveggja mánaða frest, sem hann hafði til að úrskurða um hvort brúa megi Gufufjörð og Djúpafjörð á sunnanverðum Vestfjörðum. Sveitarstjóri Vesturbyggðar segir Vestfirðinga orðna langþreytta á að bíða eftir að ráðherra komi undan feldi.

Niðurstöðu þessa máls er beðið með eftirvæntingu á Vestfjörðum enda snýst hún um það hvernig menn leysa til frambúðar einn versta farartálmann á leiðinni milli Patreksfjarðar og Reykjavíkur. Miðað við umræðuna má ætla að það sé nokkuð almennur vilji meðal sveitarstjórnarmanna á Vestfjörðum að vegurinn verði lagður út með Þorskafirði og síðan yfir bæði Djúpafjörð og Gufufjörð. Skipulagsstofnun hafnaði því hins vegar í febrúarmánuði að þessi leið yrði farin, og taldi umhverfisáhrif of mikil, þar sem vegurinn myndi spilla birkiskógi í utanverðum Þorskafirði. Frestur til að kæra þá niðurstöðu til umhverfisráðherra rann út í lok mars. Athygli vekur að Vegagerðin er meðal þeirra sem kærðu en það mun vera einsdæmi. Ráðherra hefur átta vikur frá lok kærufrests til að úrskurða og hefði því lögum samkvæmt átt að útkljá deiluna í maímánuði í vor. Enn bólar hins vegar ekkert á úrskurði ráðherra en málið var fyrst í höndum Sigríðar Önnu Þórðardóttur og síðan Jónínu Bjartmarz, sem tók við lyklavöldum í júnímánuði. Jónína hefur því haft málið á sínu borði í hálft ár. Ragnar Jörundsson, sveitarstjóri Vesturbyggðar, segir Vestfirðinga orðna langþreytta á að bíða eftir því að ráðherra skríði undan feldi. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis, ber við önnum í ráðuneytinu en segir að úrskurður komi öðrum hvoru megin við áramót. Málið sé mjög umfangsmikið, kærendur óvenju margir auk þess sem leitað hafi verið sérfræðiálits utan ráðuneytis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×