Innlent

Djúpa lægðin nálgast landið

Ein dýpsta lægð í langan tíma nálgast suðvestanvert landið síðdegis í dag með suðaustan stormi og sumstaðar ofsaveðri. Lægðin kemur að öllum líkindum upp að landinu um kvöldmatarleitið og Veðurstofan gerir ráð fyrir stormi á suðurströndinni. Veðurhæðin verður einna mest um klukkan 21. Á sama tíma er háflóð við suður- og vesturströndina og þegar loftþrýstingur við landið verður svona lágur er því töluverð hætta á að sjór gangi á land á Stokkseyri, Eyrarbakka, við Þorlákshöfn og Grindavík. Samkvæmt spám mun lægðin ganga hratt yfir.

Gunnar Stefánsson, hjá björgunarsviði Landsbjargar segir að Landsbjörg muni fylgjast vel með veðrinu í dag og er við öllu búin. Hann minnir á að lítið þurfi til að jólaskreytingar fari á flug og vill því hvetja landsmenn, þó einkum á suðvesturhorninu, til að gera viðeigandi ráðstafanir. Þá er eigendum báta ráðlagt að huga að bátum sínum meðan háflóð varir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×