Innlent

Drukkinn og próflaus og stakk af

Lögreglan í Keflavík handtók undir morgun karlmann á þrítugsaldri, grunaðan um ölvunarakstur. Lögreglan varð síðla nætur vör við að maður keyrði yfir á rauðu ljósi við Hringbrautina í Keflavík og hóf eftirför en ökumaðurinn reyndi að stinga hana af á mikilli ferð. Maðurinn keyrði sem leið lá inn á byggingarsvæði í Njarðvíkunum þar sem hann hljóp út úr bílnum og hvarf út í næturmyrkrið. Lögreglan fékk vitneskju um hver maðurinn væri og hann var skömmu síðar handtekinn heima hjá sér. Hann er nú í haldi lögreglunnar. Maðurinn, sem er um þrítugt, var talsvert ölvaður, að sögn lögreglu og reyndist líka ökuréttindalaus.

Annars var víðast hvar rólegt hjá lögreglu í nótt, tveir menn á þrítugsaldri voru teknir grunaðir um ölvunarakstur við reglubundið eftirlit í Kópavogi. Að venju voru mörg útköll vegna hávaða í heimahúsum en lögreglan í Kópavogi vill beina þeim tilmælum til fólks að sýna nágrönnum sínum í fjölbýlishúsum tillitsemi þegar halda skal veislu og fá samþykki annarra íbúa svo ekki þurfi að koma til kvartana þegar gleðin stendur sem hæst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×