Innlent

Risaborar á leið úr landi

Tveir af þremur risaborum hafa nú lokið hlutverki sínu við Kárahnjúkavirkjun og verða þeir fluttir úr landi eftir áramót. Þriðji borinn heldur hins vegar áfram og mun á næstu átján mánuðum bora göng í átt að Eyjabökkum til að sækja Jökulsá í Fljótsdal. Það var bor númer þrjú sem í fyrradag rauf síðasta haftið í aðrennslisgöngum virkjunarinnar. Þar með lauk hlutverki hans hérlendis. Borkrónan verður nú tekin af og bonum síðan bakkað út úr göngunum, hann tekinn sundur og fluttur úr landi. Það sama er nú verið að gera við bor númer eitt en hann hefur þegar fengið það verkefni að bora jarðgöng í Sviss. Bor númer tvö er sá eini sem verður áfram en hann fer nú í yfirhalningu. Í febrúar er honum ætlað að halda áfram borverki, að klára göng sem flytja eiga rennsli Jökulsár í Fljótsdal af Eyjabökkum inn í aðalgöngin, en þegar því verki lýkur vorið 2008 verður hann einnig tekinn sundur og fluttur úr landi. Rætt hefur verið um að nota þessi afkastamiklu tæki við borun vegganga hérlendis. Verktakar, sem buðu í Héðinsfjarðargöng, með það í huga að nota einn risaboranna, reyndust hins vegar vera með of hátt tilboð og höfðu ekki erindi sem erfiði.

Menn hafa áætlað að jarðgöng þurfi að vera minnst tíu kílómetra löng til að risaborar borgi sig. Ekki eru horfur á að slíkt verkefni bjóðist í veggöngum hérlendis áður en þriðji og síðasti borinn verður sendur úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×