Innlent

Starfsmenn RÚV geta haldið lífeyrisréttindum

Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar Alþingis, telur að starfsmenn Ríkisútvarpsins geti verið áfram í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna eftir að því verður breytt í hlutafélag. Össur Skarphéðinsson, varamaður í nefndinni, segir ekki ljóst hvað á að leggja mikla skatta á almenning til að standa undir rekstri félagsins.

Enn er tekist á um frumvarpið um Ríkisútvarpið. Páll Magnússon, útvarpsstjóri, kom fyrir menntamálanefnd í morgun, en meirihluti nefndarinnar vill nú ræða að setja takmarkanir á stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar, segir málið enn í vinnslu og verða rætt á vettvangi nefndarinnar á morgun og miðvikudag.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður menntamálanefndar, segir að til umfjöllunar sé í nefndinni hvernig setja megi takmarkanir á Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Ýmsar hugmyndir hafi verið settar fram í þeim efnum, en niðurstaða sé ekki komin í málið.

Eitt af stóru málunum í tengslum við frumvarpið um Ríkisútvarpið, snýr að réttindum starfsmanna stofnunarinnar, s.s. lífeyrisréttindum. Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og varamaður í menntamálanefnd, segir ljóst eftir yfirferð málsins með Páli Magnússyni útvarpsstjóra á fundi nefndarinnar í morgun, að réttarstaða starfsfólksins sé í uppnámi. Það sé verið að bjóða starfsfólkinu óbreyttan samning og réttindi næstu tvö árin, en eftir það verði réttindamál starfsmannanna algerlega undir hælnum á útvarpsstjóra eða þeim sem stjórna Ríkisútvarpinu.

Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður menntamálanefndar, segir ekki hægt að binda hendur þeirra sem fari með næstu kjarasamninga hjá Ríkisútvarpinu. Framsóknarmenn hafi hins vegar lagt áherslu á að réttindi starfsmanna væru tryggð á meðan gengið væri í gegnum þessa formbreytingu og sér sýndist sem það muni ganga eftir. Þá telur Dagný að starfsmenn ríkisútvarpsins geti verið áfram í Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna, eftir að Ríkisútvarpið verður hlutafélag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×