Innlent

Ráðherra segir stórátak hafið í vegamálum

Stórátak er hafið í vegamálum og það mun sjást rækilega á næstu árum, segir samgönguráðherra. Hann boðar tvöföldun hringvegarins út frá Reykjavík, bæði norður til Akureyrar og austur að Markarfljóti, og næstu jarðgöng verði milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og í Oddsskarði.

Samtök verslunar og þjónustu kölluðu eftir stórfelldri uppbyggingu vegakerfisins á fundi í morgun þar sem ráðherrann var ræðumaður. Hann svaraði því í hádegisviðtalinu á Stöð 2 að stórátak væri þegar hafið með símapeningum. Það myndi sjást rækilega á næstu árum og nefndi sem dæmi að eftir tvö ár yrði unnt að aka milli Ísafjarðar og Reykjavíkur á bundnu slitlagi. Hann boðaði einnig tvöföldun þjóðvegarins frá Reykjavík norður til Akureyrar og austur að Markarfljóti og taldi unnt að ná stórum áföngum á næstu átta árum. Og þegar spurt var um næstu jarðgöng á eftir Héðinsfjarðargöngum nefndi ráðherrann göng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar og ný göng undir Oddsskarð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×