Innlent

Hlutafélagið RÚV yfirtekur réttindi starfsmanna

Páll Magnússon útvarpsstjóri lýsti yfir, á fundi með starfsmönnum Ríkisútvarpsins í dag, að öll réttindi starfsmanna, bæði samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum, myndu flytjast yfir til hlutafélags um Ríkisútvarpið, þegar og ef það verður stofnað. Óvissa um réttindi starfsmanna er meðal þeirra atriða sem torveldað hafa framgang frumvarpsins um Ríkisútvarpið í gegnum Alþingi og því má telja líklegt að yfirlýsing útvarpsstjóra í dag verði til þess að greiða leið þess. Stjórnarmeirihlutinn stefnir að því að lögfesta málið fyrir jól en Páll Magnússon tók undir það í þættinum Ísland í bítið í morgun að skoða mætti takmarkanir á umfangi Ríkisútvarpsins.

Páll vísaði til viðtals við stjórnarformann 365 í Kastljósi á föstudag og sagði að vel mætti ræða hugmyndir um að tímatakmarkanir verði settar á auglýsingatíma Ríkisútvarpsins. Forstjóri 365 miðla, Ari Edwald, spáir því að dómstólar muni skera úr um það að nýtt lagaumhverfi standist ekki jafnræðisreglu Stjórnarskrár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×