Innlent

Framboð utan þings verða borin ofurliði af ríkisstyrkjum stærri flokka

Flokkar utan þings og minnihlutahópar, sem vilja bjóða fram til Alþingis, verða bornir ofurliði af ríkisstyrkjum stærri flokka, segir Guðmundur G. Þórarinsson, um samkomulag þingflokka um fjármál stjórnmálaflokkanna.

Búist er við að samkomulag um fjármál stjórnmálaflokka verði kynnt í þingflokkum eftir helgi en það gerir ráð fyrir auknum ríkisstyrkjum.

Guðmundur segir að þetta þýði að flokkarnir sjálfir ákveði fjárhæðirnar á Alþingi og hvernig fénu verði skipt.

Guðmundur leiddi Nýtt afl í síðustu þingkosningum sem hlaut eins prósents fylgi en fékk engan ríkisstyrk. Hann telur það ekki þjóna lýðræðinu verði aðilar utan þings, sem vilji bjóða fram, hafðir afskiptir.

Þeir sem eru að bjóða fram og fullnægja skyldum lýðræðisins, til dæmis á litlum afmörkuðum stöðum úti um land, eða minnihlutahópar eða slíkir, þeir séu ekki með. Þeir verða þá bornir ofurliði af ríkisstyrkjum stærri flokkanna.

Hann styður þó eindregið að lög verði sett um bókhaldskyldu stjórnmálaflokka. Það sé algjörlega nauðsynlegt og í samræmi við það sem önnur vestræn lönd hafi gert. Aðalatriðið sé að þarna verði um mikið gagnsæi að ræða. Annars verði lýðræðið aldrei virkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×